Þórskaffi

Þórskaffi var, fyrir tíma Glaumbæjar, vagga þróunartímabils í dægurlagatónlist. Í þessum fábrotna, galopna sal með sviði, dansgólfi og lítilli bareiningu voru að auki eingöngu borð og stólar. Staðurinn var “vínlaus” en inngangeyrir hár ef miðað var við vínveitingastaðina. Í þessu hráa umhverfi þróaðist KK sextettinn og spilaði með söngkonunum Sigrúnu Jónsdóttur og Ellý Vilhjálms. Músikin breyttist og í stað smekklegra útsetninga Ólafs Gauks og Jóns Sigurðssonar kom rokksveitin Lúdó og Stefán og tók við en sú hjómsveit varð vinsælust meðal unga fólksins eftir að KK sextett hætti. Árin liðu, en Þórskaffi hélt vinsældum sínum fyrri part viku, enda eini skemmtistaðurinn sem var opinn til kl.1:00 þau kvöld. Ég söng fyrri part vikunnar í Þórskaffi 1969-1972 með hléum, fyrst með Haukum og síðan B.J. Þórkaffi var í eigu og rekið af fjölskyldu Ragnars Jónssonar en hann hafði stofnað staðinn. Ég man ekki eftir nema tveimur þjónum á staðnum utan þjónustustúlkna. Annar hét Leifur. Gárungarnir sögðu að hann væri hluti af innréttingunni en hinn var Þór, sonur Ragnars. Þeir, sem sóttu staðinn fyrri part vikunnar samanstóðu af sjómönnum, sem vildu skemmta sér í landi, leigubílstjórum og öðrum starfshópum, sem unnu um helgar. Þarna voru líka ungir krakkar. sem vegna aldurs fengu ekki inngöngu í vínveitingahúsin. Einnig slæddust þarna inn á milli þekktir misyndismenn, sem héldu hópinn og sátu oft við sama borðið innarlega í salnum. Þarna gerðust mörg frásagnarverð atvik, sem hægt væri að skrifa um. Eitt kvöldið kom fjarskyldur ættingi minn í Þórskaffi. Þessi ættkvísl er afar glaðlynd og mikið fyrir söng en ekki alltaf tónviss. Þetta kvöld lék gleði frændans lausum hala. Hann var kófdrukkinn, dansaði við sjálfan sig, og söng hástöfum. Öðru hvoru rak hann upp rokna hlátursgusur, þannig að það var illmögulegt að hlæja ekki með honum og taka þátt í þessari taumlausu gleði og miklu hamingju. Gítarleikarinn í hljómsveitinni hló og sagði: “Á hvaða stöffi skyldi þessi nú vera”? Þarna, þar sem frændinn stóð á miðju dansgólfinu, tók hann upp lítið pilluglas úr vasa sínum en sökum ölvunar hvoldi hann úr glasinu á gólfið. Það var líkt og flokkar smáfugla sem komast í góðan berjarunna á haustin þegar hluti gestanna, hver sem betur gat, réðst á gólfið og tíndi töflurnar beint upp í sig. Eflaust héldu þeir að þeir myndu fá sömu áhrif og frændinn. Ég fór niður af sviðinu og týndi upp nokkrar og fór með þær til frænda, sem þakkaði mér kærlega fyrir að hafa fært sér hjartameðalið sitt, sem hann varð að taka reglulega. Það var ekki laust við að þeir sem höfðu smakkað og fengið síðan að vita hvað innihald taflanna var, hafi talið sig finna fyrir verulegum hjartatruflunum. Eins og áður hefur komið fram héldu misyndismennirnir hópinn. Fæstir þeirra unnu á daginn og varð það því verulegt umræðuefni þegar einn þeirra, sem hafði verið lengi tannlaus var allt í einu kominn með einn falskan góm. Sagan sagði að hann hefði byrlað ungum stúlkum ólyfjan og selt þær síðan tannlækni til kynlífsnota og fengið einn góm sem endurgjald. Það fylgdi einnig sögunni að nú væri hann að leita sér að fórnarlömbum fyrir hinn góminn. Inngangurinn í salinn var við hliðina á sviðinu, og í eins þrepa hæð frá dansgólfinu. Það voru aðallega yngstu gestirnir, sem stoppuðu við sviðið til að spjalla við mig áður en sest var við borð í salnum. Ég vissi því talsvert um hagi þeirra og framtíðardrauma. Eitt kvöldið kom það því mér verulega á óvart þegar ég sé þennan eins góma mann vera kominn með eina litlu vinkonu mína meðvitunarlausa á öxlina, á leið út úr salnum. Ég stökk til og kom þeim boðum til dyravarðanna að frelsa stúlkuna frá honum. Eftir þetta atvik einhverjum kvöldum seinna þegar ég mætti í Þórskaffi beið mín heldur ófrýnilegur hópur þessara sömu misyndismanna á tröppunum og vörnuðu mér inngöngu. Dyraverðirnir voru ekki mættir þannig að þarna stóð ég ein, andspænis þessum með eina góminn. Hann gapti eins og fiskur á þurru landi með skröltandi góminn hálflausan upp í sér. Hann hótaði mér: “Við höfum heyrt að þú sért að vinna sem uppljóstrari hjá rannsóknarlögreglunni”. Við vitum hvar þú átt heima og við vitum að þú átt ungan son. Þú skalt fá að kenna á því. En þegar hann byrjaði að nálgast mig frekar, kom óvæntur bjargvættur. Bjargvætturinn, sem mig minnir að hafi heitið Gestur var alrændur og verið dæmdur fyrir að ræna fólk og berja það. Hann bar höfuð og herðar yfir þessi smápeð, sem voru að ógna mér. Hann ruddi þeim til hliðar tók mig í fangið og bar yfir Nóatúnsgötuna. Síðan kallaði hann yfir til þeirra að ef þeir hypjuðu sig ekki niður af tröppunum þá myndi hann ganga frá þeim og ef þeir snertu hár á höfðinu á mér, þá skyldi hausinn fjúka af þeim. Hópurinn hörfaði og snautaði í burtu en ég þakkaði fyrir mig. Eftir þetta leið mér alltaf illa ef ég fékk slæmar fréttir af þessum bjargvætti mínum. Það var of oft.   Þegar erlend herskip komu til Reykjavíkur fylltist Þórskaffi af sjóðliðum og yfirmönnum.  Ég var enda vinnudag í tískuversluninni Loly á Laugaveginum og ætlaði beint upp í Þórskaffi til að æfa mig og læra nokkur lög, sem ég var með á spólu í blýþunga segulbandstækinu mínu. Þegar ég byrjaði að ganga í átt að Þórskaffi var ég skyndilega umkringd frönskum sjóliðum. Þeir skildu mig ekki og ég skildi þá ekki en þegar einn tók smádansspor þá vissi ég að þeir voru að leita að skemmtistað svo þeir gætu dansað. Ég benti á mig og segulbandið og hreyfði munninn. Þeir tóku það greinilega þannig að ég væri að biðja þá um að bera tækið fyrir mig því þeir þrifu það af mér og horfðu síðan spyrjandi á mig eins og litlir sætir hvolpar. Ég tók nokkur danssport og benti síðan í átt að Þórskaffi og við lögðum öll af stað. Þegar komið var upp á tröppurnar í Þórskaffi, kom Volkswagen bjalla akandi og mér til mikillar furðu týndust svo margir sjóliðar út úr bílnum að það minnti helst á geitungabú. Þessi minning kom upp eftir að ég hafði byrjað á heimasíðunni minni. Ég varð ekki lítið hissa þegar eiginmaður minn sagði: Það var ég, sem keyrði bílinn. Hann hélt áfram og sagði: Ég hitti þessa vegvilltu sjóliða neðst á Laugavegi. Þeir stoppuðu mig og spurðu mig um skemmtistað og ég vorkenndi þeim svo mikið að ég skutlaði þeim upp í Brautarholt. Ég var sjálfur hissa á þeim fjölda, sem gat troðið sér inn í svona lítinn bíl.  Já, svona eru tilviljarnar. Ég hefði svo sannarlega skoðað þennan bílstjóra í litlu bjöllunni í krók og kring ef ég hefði vitað að þarna væri kominn lífsförunautur minn til 34 ára, enn sem komið er og eiginmaður.