Playboy næturklúbburinn

Á árinu 1969 varð einskonar bylting í skemmtanalífinu þegar nokkrir næturklúbbar á höfuðborgarsvæðinu voru opnaðir og tóku til starfa. Undirbúningurinn að opnun þeirra hafði farið fram með mikilli leynd. Við í hljómsveitinni, sem skemmti gestum í einum þessarar staða, Playboyklúbbnum, upplifðum hinsvegar ástandið afslappað og eðlilegt. Gestirnir voru af öllum stéttum og af öllum gerðum. Það var því undarlegra hvað ríkti undantekningarlaust mikill einhugur hjá þessum ólíku hópum til að halda öllu í jafnvægi. Engin veruleg vandamál komu upp þrátt fyrir að það gætti talsverðrar ölvunar. Gestir staðarins virtust samtaka um að berjast fyrir því að staðurinn yrði áfram opinn þrátt fyrir að öll tilskilin leyfi vantaði fyrir starfseminni. Eini óvissuþátturinn á hverju kvöldi var hvort lögreglan myndi gera rassíu, beita valdi og brjóta sér leið inn á staðinn, stöðva reksturinn og jafnvel handtaka gestina.   Ekki bætti úr skák að fjárhættuspil var stundað í einskonar bakherbergi en fjárhættuspil var á þessum tíma stranglega bannað samkvæmt lögum og lá þung refsing við. Það voru ekki eingöngu þeir sem hömuðust við að dansa og skemmta sér sem svitnuðu mest. Nei það voru frekar þessir alteknu fjárhættuspilarar sem engdust sundur og saman af óheppni kvöldsins eða hrósuðu sigri svo æðar tútnuðu út á andliti þeirra og augun lýstu annað hvort skelfingu eða græðgi, svo þeir urðu óþekkanlegir þeim sem þekktu þá í þeirra daglega lífi. Playboyklúbburinnl var opinn frá aðfararnótt föstudags til aðfararnætur mánudags og allar nætur helgidaga frá miðnætti til kl.6 á morgnanna. En við unnum frá kl.01:00 til kl.05:00 þá daga sem opið var. Alltaf var troðfullur salur og sagt var að stundum hefði verið meira en 500 manns á kvöldi. En gleðin var skammvinn og að því kom að lögreglan mætti og í framhaldi af því var klúbbunum lokað. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að lýsa þessari lokun nánar en ítarlegar frásagnir af þeim atburðum er að finna í samtímaheimildum í gagnagrunninum www.timarit.is.

Nokkrir undirslóðir:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=354022&pageId=5612355&lang=is&q=n%E6turkl%FAbbnum Playboy

 http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=237034&pageId=3227645&lang=is&q=n%E6turkl%FAbbum

 http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=114049&pageId=1401244&lang=is&q=Playboy

 http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=257440&pageId=3591663&lang=is&q=n%E6turkl%FAbb n%E6turkl%FAbbanna

 http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=237051&pageId=3227901&lang=is&q=Playboy N%E6turkl%FAbbunum

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=237053&pageId=3227940&lang=is&q=n%E6turkl%FAbb n%E6turkl%FAbbum

 http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=237062&pageId=3228092&lang=is&q=n%E6turkl%FAbb

Playboy dómur í sakadómi  05.07.69