Röðull

Það var ævintýralega gaman og óvenjuleg lífsreynsla að syngja á Naval Air Station í Keflavík en þegar ég lít til baka finnst mér skemmtilegasti tími söngferlils míns vera um sumarið 1964 á Röðli. Því fylgdi mikil eftirvænting og tilbreyting að fá tækifæri til að syngja opinberlega í fyrsta sinn á skemmtistað í Reykjavík þótt ég hafi ekki verið ráðin nema 3 vikur í fyrstu. Síðan var það framlengt. Hvert kvöld fannst mér gefandi og mér fannst hvert lag gefa mér gleði og hamingju, hvort sem ég var að fara upp og niður tónskalana eða hvort ég var að syngja ballöður, jazz eða lög augnabliksins. Ef til vill var það þessi mikli stuðningur frá áheyrendum og starfsfólkinu, sem voru ósparir á að gleðjast með mér og fagna, ef þeim fannst ég gera góða hluti. Eins var það í hverfinu mínu, Ljósvallagötunni og nágrenni. Hringskonurnar komu í mjólkurbúðina, spurðu mig um hvert kvöld og fylgdust með fullar af áhuga. Þær töldu þetta mikla velgengni og lögðu sig fram um að telja mér trú um að ég hefði unnið stóra söngsigra. Þannig hvöttu þær mig óspart og þar sem mér þótti mikils til þeirra koma fannst mér verulega vænt um hvað þær lögðu sig fram við að styðja mig. Á Röðli réð Helga Marteinsdóttir ríkjum og gekk líka um með ánægjusvip. Hún var tígurlegur veitingahússeignandi í íslenska búninginum og stjórnaði í anda stórbýlis fyrr á árum. Allir fengu mat og engum leyfðist annað en vera hluti af heildinni. Gestir Röðuls voru á öllum leyfilegum aldri og af öllum stigum þjóðfélgsins enda hafði Glaumbær á þessum tima ekki sópað aðsókninni til sín og því var samsetning gestanna fjölbreytt og með mismunandi áherslum. Þrátt fyrir opið hús og almennan dansleik héldu gestir staðarins brúðkaupsveislur sínar á Röðli og stórafmælisveislur. Meira að segja dreif amma mín, þá sjötug að aldri sig í rútuferð til Reykjavíkur til að hlusta á mig. Hún sló svo sannarlega í gegn á Röðli. Uppáklædd íslenskum þjóðbúningi birtist hún glæsileg með gullbeltið, sem forfaðir okkar Þorbjörn himnasmiður hafði smíðað.   Ég er ekki viss um nema hún hafi stolið frá mér senunni þegar hún var umsetin ungu fólki sem vildi spjalla við hana og kynnast henni. Já, hún amma mín hafði ótrúlega hæfileika til mannlegra samskipta og laðaði að sér fólk. Þess vegna  í stað þess að sitja ein út í horni náði hún sér í eitt stærsta borðið í salnum við dansgólfið og var fljótlega hvert einasta sæti setið hjá henni og komust færri að en vildu. Við fengum líka heimsókn frá sjónvarpstöðinni BBC . Þeir voru að gera heimildarmynd um Ísland og mér þótti afar gaman að fá tækifæri og vera valin til syngja lag sem þeir tóku upp til að nota sem sýnishorn um skemmtanamenningu Íslendinga. En mest var ég spennt þegar uppáhalds söngkonan mín hún Ellý Vilhjálms boðaði komu sína til að hlusta á mig. Eftirá fékk ég dóminn: Hún er góð, en getur orðið betri. Þetta þótti mér mikilsvert hól og hugsaði mér að læra og geta meira.

Eftirfarandi grein er eftir Loft Guðmundsson rithöfund og ég tel að hann nái í greininni að lýsa svo vel þeim skemmtistað sem Röðull var að það þarf ekkert frekari orð. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=183025&pageId=2373082&lang=is&q=Helgu Sig%FE%F3rsd%F3ttur