Sigtún

Þegar ég byrjaði að syngja í Sigtúni 1968 voru ný viðhorf og róttækar skoðanir að ryðja sér til rúms, hér á landi, meðal yngri kynslóðarinnar líkt og víða erlendis. Þessi tími hefur oft verið kenndur við ´68 kynslóðina og stúdentabyltingar víða um lönd. Þessar breytingar og nýju viðhorf lýstu sér m.a. í nýjum klæðaburði sem var um margt frjálslegri en áður hafði tíðkast og eins í neyslu nýrra vímuefna annara en neyslu áfengis. Andrúmsloftið á skemmtistöðunum bar þessu ótvírætt merki og breytingin frá söngtímabili mínu á Röðli var sláandi. Veitingamaðurinn í Sigtúni hét Sigmar og var gjarnan kenndur við staðinn. Hann hafði unnið sig frá því að vera klósettvörður staðarins upp í að eiga reksturinn. Sigmar var frekar hávaxinn og þéttvaxinn. Við mig var hann afar kurteins og vingjarnlegur í tali og framgöngu. En séreinkenni hans var að hann skrollaði og þurfti að þola talsverða stríðni út af þessu einkenni sínu. Það var ósjaldan, þegar hann kom til tals, að hermt væri eftir honum skrollið. Þegar við spiluðum á árshátíðum naut hann þess að fá að taka í nikkuna sína og spilaði þá með okkur í mörgum lögum.

Sigmari var mikið niðri fyrir og skrollaði meira en venjulega þegar hann tilkynnti okkur að Sigtún hefði ráðið nokkrar nektardansmeyjar frá London og þær færu víst úr öllu.   Sú fyrsta kom skömmu síðar og skemmti undir nafninu Sabína. Hún var grísk að uppruna og hafði farið til London til að læra ballet. En í honum eru fáir útvaldir og að því kom að hún sá ekki fram á að geta unnið fyrir sér á þann hátt. Hún breytti því um stíl og snéri sér að öðruvísi og djarfari danslist. Hún vakti mikla hrifningu gesta og þótti undurfalleg og vel vaxin með orange litað hár. Svo langt gekk aðdáun sumra meðal annars landsþekkst lögfræðings, sem átti fund með henni að hún átti að eigin sögn fótum fjör að launa.   Ástæðan fyrir fundinum var að hún vildi losna undan samningi sínum við Sigtún og komast til kærastans í London. Hún hafði fengið fréttir af því að aðrar nektardansmeyjar væru farnar að gefa honum hýrt auga. Þetta var neyðarástand sem kallaði á skjótar aðgerðir. Lögfræðingurinn reyndist “aðgangsharðari” en hún hafði búist við og þurfti hún að beita klækjum til að koma sínu fram. Einhvern vegin tókst henni ræna hann hálsbindinu, sem hún sýndi mér og mig minnir að hafa verið rautt á litinn. Hún hótaði honum að sýna konunni hans bindið, ef hann hjálpaði sér ekki. Viti menn, samningnum var rift án bóta eða annara eftirmála. Það kom okkur líka skemmtilega á óvart þegar hún Dísa, eiginkona Sigmars, sem vann á barnum á efri hæðinni birtist eitt kvöldið með skær orange litað hár. Svo mikil voru áhrif hennar Sabínu.

Ég byrjaði að syngja í Sigtúni með Hljómsveit Gunnars Kvaran, síðan HB kvintettinum, Haukum og B.J. Ég sá mikið eftir Gunnari Kvaran, þegar hann tók sér hljómsveitarpásu og snéri sér að öðrum verkefnum. Í hljómsveit hans var alltaf góður vinnuandi og léttur húmor. Við vorum öll mjög ólíkir persónuleikar og kannske skapaði það rými fyrir húmor og tilbreytingu. Jón Garðar (Gæi langi) bassaleikari sá umhverfi og fólk öðruvísi en flestir. Hann náði að koma okkur stöðugt á óvart á sinn húmoríska hátt. Erlendur trommuleikari hafði afar háleit markmið í lífinu og meiri einlægni en flestir og því fastari í skoðunum sínum. Einar Hólm tók við af Erlendi. Það mátti vera öllum ljóst að hann var sannur hugsjónarmaður í dagvinnu sinni, sem var kennsla á grunnskólastigi,  og þá sérstaklega fyrir þeim sem minnst máttu sín. Haraldur Bragason var gegnum heill og góður drengur, sem vildi öllum vel. Gunnar, sjálfur var mjög skemmilegur og fyndinn. Hann kunni líka að meta góðan húmor og hafði að auki þann sjaldgæfa eiginleika að jafna öll mál með glaðlyndi sínu og fágaðri framkomu.

Gestir Sigtúns voru í frjálslegri hluta ´68 kynslóðarinnar . Þeir vildu tónlist augnabliksins og dansa. Ég var samfellt í Sigtúni í nokkur ár og festi tryggð við staðinn. Ég held að ég geti sagt með sanni að þetta tímabil hafi verið “mín bestu ár”.