Hótel Loftleiðir

Víkingasalur Hótel Loftleiða skar sig úr hvað varðaði fjölda erlendra gesta á skemmtistöðum í Reykjavík, vegna nálægðar sinnar við hótelið. Það var í eigu og rekið af eina flugfélaginu, sem flaug reglulegu áætlunar-,  millilandaflug frá Íslandi til Ameríku og Evrópu. Á þessum tíma sást varla útlendingur á skemmtistöðunum nema ef einhver sérstakur viðburður gæfi tilefni til þátttöku erlendis frá eða veitingareksturinn tengdist hóteli. Eftir öll þau ár sem liðið hafa er eftirminnilegasta minningin, sem söngkona í Víkingasalnum, starfsfólk Hótel Loftleiða. Ég söng fyrri part vikunnar talsverðan tíma og um eitt sumarið einnig öll kvöld, þegar staðurinn var opinn.   Það gilti einu, ég hlakkaði alltaf til að mæta og umgangast þennan líflega og elskulega starfshóp. Meira að segja kynntist ég ræstingarfólkinu, en það voru elskuleg hjón og áttum við oft gott spjall saman áður en ég fór upp á fyrstu hæð í Víkingasalinn. Tónlistin samanstóð af léttum lögum augnabliksins ásamt sígildum. Mörgum árum seinna þegar ég, sem nemi í endurskoðun hafði verið send til að aðstoða við ársuppgjör Flugleiða borðaði ég í Víkingasalnum.  Þá  fannst mér  salurinn tómlegur og næstum fráhrindandi enda vantaði starfsfólkið, sem hafði gefið salnum líf og þennan hlýlega, sérstaka blæ.