Hótel Akranes

Ég söng aðeins einu sinni á Akranesi en ég verð að segja frá þessari ferð, sem sýnir hversu mannlegi þátturinn, vináttan, er mikilvægur í lífi fólks og fyrir það er þessi ferð einstök. Þegar ég 17 ára og kom á Akranes til að vinna á sjúkrahúsinu sem gangastúlka kynntist ég sérstæðu og eftirminnilegu vinnuumhverfi, þar sem Sigurlín Gunnarsdóttir (hvíti engillinn), yfirhjúkrunarkona réði “ríkjum”. Stjórnun hennar varð til þess að allir þeir sem lögðust inn á sjúkrahúsið og allt starfsfólkið náði þeirri einingu og samheldni að geta gefið og þegið. Þannig kynntist fólk á annan og persónulegri hátt, heldur en þegar sjúklingar eru settir á einskonar færiband án náinna mannlegra tengsla og umönnunar. Þessi nánd varð til þess að margir Akurnesingar urðu góðir vinir mínir og einnig aðstandendur þeirra, sem þurftu oft engu að síður á okkur að halda. Eins og Sigurlín stjórnaði var mottóið: “Aðgát skal höfð í nærveru sálar”. Það var því sérstakt tilhlökkunarefni hjá mér að fá tækifæri til að syngja fyrir Akurnesinga. Á leiðinni upp á Akranes var spegilsléttur Hvalfjörðurinn sem skartaði sínu fegusta, umkringdur fegurð fjallanna með litrófi náttúrunnar.   En þessar rómantísku tilfinningar hurfu þegar við keyrðum inni í Akranesbæinn, þá blasti blákaldur raunveruleikinn við. Fullbúnar og troðfullar rútur af eftirvæntingafullum sveitaballsförum stóðu tilbúnar og beið fólk óþreyjufullt eftir brottför á sveitaball á Logalandi í Reykholtsdal. Ég vissi af gamalli reynslu, sem Borgfirðingur, að það keppir enginn við sveitaböllin. Ýmis þekkt nöfn í tónlistarbrasanum, sem höfðu reynt slíkt höfðu fengið dapra reynslu af spilun fyrir tómu húsi og sneypuför heim. Við pökkuðum samt upp hljóðfærunum og söngkerfinu vonsvikin því upplýsingar sem ég hafði voru þær að það væri ekkert sveitaball í Borgarfirðinum og nágrenni þessa helgi. Þetta hafði ég fullyrt við hljómsveitina. Við byrjuðum að spila fyrir galtómu húsi en ég get ekki lýst þeim tilfinningum mínum, þegar salurinn fylltist allt í einu og ég leit framan í allt það fólk sem ég þekkti svo vel frá veru minni á Akranesi. Þetta yndislega fólk kom til mín og tilkynnti mér að það hefði verið smalað út úr rútunum til að koma á hótelið og skemmta sér með mér. Eins og þau sögðu: “Okkur datt ekki hug að fara að skilja þig eftir á hótelinu, svo við komum bara til þín”. Þessi vinátta og hlýhugur lifir jafnsterkt í mínum huga og undrunin þegar ég sá allt þetta yndislega fólk koma inn í salinn og sýna mér með því vináttu sína. Ég held að ég hafi aldrei sungið jafn vel og af jafn sterkri tilfinningu og þetta kvöld. Mér fannst reyndar eins og ég hefði aldrei farið.