My life/ Um mig

Ég er að uppruna sveitastelpa úr Borgarfirðinum.  12 ára fór ég að heiman, flutti í Borgarnes  og sótti um vinnu hjá Kaupfélagi Borgfirðinga.  Kaupfélagsstjórinn afgreiddi umsóknina með spurningunni:  Heldurðu að þú náir upp á afgreiðsluborðið? Ég rétti úr mér eins og ég hafði “lengd” til og var ráðin í kjötbúðina.  Þegar ég fermdist árið eftir fékk ég heillaóskaskeyti frá samstarfsfólkinu í kjötbúðinni.  Eftir það réð ég mig í skógrækt og síðan var Sjúkrahús Akraness næsti vinnustaður minn. Þar var gott að vera.  Ég flutti til Reykjavíkur 18 ára gömul.  Þar byrjaði ég sem nemi í hárgreiðslu en gafst upp.  Bæði voru launin lág og starfsumhverfið niðurdrepandi.  Þá lá leiðin  í Sælgætisverksmiðjuna NóaSíríus en þaðan var ég rekin.  Ástæðan var að ég gat bakað á einhverri hlussu kexvél á einni klukkustund það sem aðrir höfðu gert á 8 tímum.  Þetta raskaði öllum verkferlum, sérstaklega þar sem ég taldi mig eiga rétt á hvíld sjö tímana, sem ég hafði “sparað”.  Mér var stillt upp við vegg,  Fyrir framan mig stóð forstjórinn, allt skrifstofufólkið og verkstjórarnir.  Valkostirnir voru:  8 tímar við kexkökubakstur í hlussuvélinni eða ég yrði rekin.  Ég valdi brottreksturinn. Síðan vann ég hér og þar en endaði í mjólkurbúð, sem stóð á horninu á Ásvallagötu og Ljósvallagötu.  Ég átti heima á Ljósvallagötu 14, þannig að ég gat ekki verið á betri stað,  enda umhverfið frábært.  Ég var umkringd úrvals konum sem voru í kvenfélaginu Hringnum og börnin í hverfinu elskuðu afklippurnar af vínarbrauðslengjunum og mjólkurdreitilinn,  sem þau fengu úr fernunum sem ég “sprengdi” handa þeim.  Þessi vinna hentaði mér mjög vel ásamt söngnum en ég hafði  byrjað að syngja sem atvinnusöngkona, þegar ég var að gefast upp í hárgreiðslunni.  Eins og fram kemur á síðunni vann ég við dægurlagasöng frá 1962 til 1976.  Söngurinn var líf mitt og yndi og því var það gríðarlegt áfall fyrir mig, þegar ég  varð fyrir mjög alvarlegum fæðingaráverka.  Við áverkann rifnaði þindin.  Þeir, sem til þekkja vita, hvaða afleiðingar það hefur fyrir söngröddina, sem byggist að mestu upp á réttri öndun.

Árið 1970 tók ég þá ákvörðun að breyta lífi mínu og afla mér meiri menntunar en fram að þeim tíma var hún takmörkuð við 12 ára barnaskólapróf.  1973 hóf ég nám við öldungardeild Menntaskólans við Hamrahlíð (MH) og lauk stúdentprófi þaðan í janúar 1977. Ég hóf nám við viðskiptadeild HÍ  haustið 1976 skv. undanþágu þar ég átti eitt próf eftir í stúdentsprófið og lauk cand. oecon prófgráðu frá HÍ í janúar 1981.

Með kvöldnámiu við öldungadeild MH hafði ég ákveðið að hætta sem dægurlagasöngkona að atvinnu og réði mig á skrifstofu frá 9 – 5. Þegar síðan litla timburhúsið mitt gjöreyðilagðist vegna yfirborðsvatnsflæðis af völdum snjóbráðnunar og leysingarvatnið  flæddi yfir ísmyndun utanhúss og inn í húsið og gegnumsósaði gólf og veggi, þá bjargaði söngurinn mér fjárhagslega um sumarið 1974. Fyrir utan þá gleði sem ég hafði af tónlistinni og ferðalögunum, sem fylgdu, þá náði ég að safna fyrir klæðningu á húsið að utanverðu. En mér tókst ekki að skrapa saman fyrir vinnu iðnaðarmanna við endurbyggingu að innan.  Ég náði mér því í stærðar kúbein, Wolf rafmagnsvél ásamt öðrum smáverkfærum. Með allt þetta að vopni og bækling frá bóksölu stúdenta um byggingu norskra tréhúsa réðist ég til atlögu á einn stofuvegginn með kúbeininu. Eftir það var ekki aftur snúið. Þegar ég hóf háskólanámið þá rakst það á við skrifstofuvinnuna.  Hvoru tveggja var stundað á daginn þannig að ég sagði upp skrifstofustarfinu hjá Fossberg hf. og réði mig á næturvaktir í útibúi geðdeildar Borgarspítalans, Hvítabandinu, sem var staðsett efst á Skólavörðustíg. Þaðan gat ég gengið til HÍ á morgnanna eftir vinnu. 1976 var ég  aftur orðin blönk og skuldug og enn bjargaði söngurinn mér. Í sumarfríinu mínu og á fríhelgum söng ég á skemmtistöðum. Mér er enn í fersku minni þegar skólafélagar mínir úr viðskiptadeild HÍ, sem voru talsvert yngri en ég, ráku upp stór augu og fögnuðu mér þegar þeir sáu mig í hörkuvinnu við söng í Klúbbnum við Lækjarteig.

Í dag er ég 75 ára  og þegar ég lít til baka þá hefur líf mitt verið litríkara með fjölbreyttum störfum og mismunandi lífsmynstri og vonandi gert mig að betri manneskju.   Menntunin gaf mér betri lifandi og greinandi þekkingu á þjóðfélagsmynstrinu og atvinnulífinu, blankheitin gerðu mér kleift að þekkja virði þess að fylla hugann af einhverju öðru en neyslu og kaupæði, smíðavinnan kenndi mér að það er hægt að gera það sem virðist ómögulegt og vinnan á geðdeild kenndi mér að gefast aldrei upp, hvorki á sjálfri mér eða öðrum. Í öllu þessu yfirgáfu  söngurinn og tónlistin mig aldrei.