Naval Air Station Keflavik

Ég var á leiðinni í mína fyrstu atrennu í dægurlagasöng og leit í kringum mig í sendiferðakubbnum og virti fyrir mér væntanlega samstarfsmenn mína. Sendiferðakubburinn var með sæti fyrir 8-10 manns og fyrir aftan sætaraðirnar var autt pláss fyrir hljóðfærin .   Í stað þess vegar til Keflavíkur, sem við þekkjum í dag, sem er steyptur og upplýstur, var þessi gamli illa farinn malarvegur, holóttur og stórgrýttur með ótal beygjum. Það var útsynningur, rok og rigning. Aurinn úr veginum gekk upp á rúðurnar þannig að það var ekki auðvelt að sjá út, enda niðamyrkur. Hvað var ég sveitastelpan að gera þarna, hugsaði ég, og hvert var ég eiginlega að fara? Samferðamenn mínir, hljómsveitarmennirnir fimm voru mér algjörlega ókunnugir. Ég horfði á þá. Fyrir mér, 19 ára gamalli, voru þetta flestir miðaldra menn, a.m.k. talsvert eldri en ég utan þess að ég hafði aðeins hitt þann yngsta, hljómsveitarstjórann tvisvar, annað skiptið þegar hann réði mig og hitt þegar við hittumst heima hjá honum og hann setti mér fyrir þau lög, sem söngkonan, sem ég átti að taka við af hafði sungið og læra textana við lögin. Mér líkaði samt strax vel við þennan háa og grannholda mann og áttum við hið besta samstarf eftir þetta. Með okkur í för var söngkonan, sem ég átti að taka við af og læra af . Hún var mikið glæsikvendi, andstætt mér virtist hún heimsvön og sjálfsörugg, hávaxin og myndarleg. Hún átti greinilega sviðið í þessari reynsluferð minni. Augljós aðdáandi söngkonunnar var bassaleikarinn. Hann sagði brandara og hún hló og þau hlógu bæði. Mér leist engan vegin á að ég sveitastelpan, sem hafði hálfstrokið að heiman 12 ára, gæti fetað í fótspor hennar. Ég reyndi að velta fyrir mér hvernig ég ætti að bera mig að á sviðinu og hvort ég myndi muna textana og lögin sem mér voru sett fyrir. Áfram héldum við í myrkrinu og ég var ekki mjög upplitsdjörf þegar trommuleikarinn ávarpaði mig og sagði: Sjáðu Helga, hér gætirðu séð Stapadrauginn. Hann á það til að flæma bílstjóra út af veginum með því að stökkva fyrir bíla. Mér fannst þetta ferðalag taka óendanlega langan tíma.  Loks sveigðum við inná afleggjara og við mér blöstu gríðarlega háar og miklar mannheldar girðingar með gaddavíri efst. Flóðlýst hlið var á girðingunni og lítill skúr þar sem lögregla og hermenn voru við gæslu þannig að óboðnir gestir kæmust ekki inn á hersvæðið. Allir þurftu að hafa varnarliðsmann sem “sponsor” til að fá gestapassa og inngöngu inn á hersvæðið. Sponsorarnir báru ábyrgð á að ekkert kæmi fyrir gestinn og gesturinn bryti engar reglur á hersvæðinu og væri að öðru leyti hættulaus. Litla sveitastúlkan yfirtók mig  þegar ég sá allan þennan viðbúnað en mér varð ljóst að ég hafði ekkert tækifæri til að snúa til baka. Hljómsveitarstjórinn sá um að skrá okkur inn og mér fannst ég afkróuð og innilokuð þegar við keyrðum í gegnum hliðið og inn á vallarsvæðið. Við keyrðum alllengi þar til við komum að lágreistri byggingu, einskonar bragga. Þetta er CPO sagði hljómsveitarstjórinn við mig. Hér áttu að syngja.

Við fórum inn í klúbbinn. Þar var frekar dimmt innandyra. Hljómsveitarstjórinn lét klúbbstjóra kvöldsins skrá okkur inn í gestabók. Öðru vísi höfðum við ekki leyfi til að vera í klúbbnum. Okkur var fylgt að stóru borði, sem rúmaði okkur öll. Þjónn kom að borðinu og bauð okkur að panta. Ég, sem hafði aldrei komið á virkilegan matsölustað fylltist skelfingu þegar þjónninn nálgaðist en var þó verulega létt þegar hann snéri sér fyrst að heimsvönu söngkonunni. Ég heyrði ekki einu sinni fyrir taugaveiklun hvað hún pantaði. Þegar hann síðan snéri sér að mér var ég alveg búin á þvi en gat rétt stunið upp: “Just the same for me, please” En ég var ljónheppin því þessi hávaxna söngkona hafði pantað sér gríðarlega stóra T-bone steik, franskar kartöflur og bernaissósu. Ég, sveitastelpan hafði aldrei smakkað svona stórkostlega steik, sem rann upp í munninum og skildi eftir sig sterkan keim eftir grillið. Ég hresstist mikið og varð ljóst að þarna var ég hreinlega komin í algjört lostætishreiður og að fá þvílíkt góðgæti varð til þess að mér líkaði strax miklu betur við tilvist mina á vellinum. Þá var komið að aðalþolrauninni. Hljómsveitin átti að byrja að spila. Eftir steikina varð ég talsvert öruggari og ákvað að reyna bara að hreyfa mig svipað og fyrirmyndin mín, söngkonan.  Mér var fengið tambórín og hún söng nokkur lög og fólkið klappaði fyrir henni.   Einn gestanna kom að sviðinu og spurði hljómsveitarstjórann hvort þessi nýja ætti ekki að fara gefa hljóð frá sér svo þeir gætu vitað hverju þeir ættu von á í framtíðinni.  Ég lagði frá mér trambólínið og gekk að hljóðnemanum. Hljómsveitin tók nokkra byrjunartakta, ég kom inn í og söng. Það var ólýsanlegur léttir þegar ég fékk klapp eins og söngkonan og einn gesturinn hrópaði: She can sing!  Þar með var ég innvígð í starfið.

Eftir þessa fyrstu reynslu gekk allt sinn vanagang. Ég lærði smásaman á ýmsa kosti þess að vinna sem söngkona á vellinum. Í fyrsta skipti á ævinni vann ég fyrir mjög góðum launum og fékk þar að auki 25% ofan á launin í fatapeninga þannig að ég réði mér saumakonu og hún saumaði fötin sem ég hannaði. Í sælgætisvélunum var hægt að fá ótrúlegt úrval fyrir mjög lítinn pening og sígarréttur sem kostuðu sáralítið fyrir mig, sem keðjureykti. En,  það þurfti að smygla þessu út þar sem við máttum ekki taka neitt með okkur út af vellinum sem við höfðum ekki meðferðis þegar við komum inn.  Ég fann fljótlega fyrir því að einn íslenski lögregluþjóninn hafði óþægilega mikinn áhuga á mér. Hann sýndi þenna óumbeðna áhuga með því að stöðva ferð okkar, þegar hann var í hliðinu, í stað þess að veifa okkur óskoðuðum í gegn eins og flestir aðrir gerðu og hann spurði mig alltaf sérstaklega: Ertu með eitthvað? Að sjálfsögðu svaraði ég alltaf neitandi. Í eitt skiptið hafði ég hlaðið inn á mig heilu kartoni af sígarrettum og mér til mikillar skelfingar sá ég að þessi eltihrellir minn var eimitt á vakt í hliðinu. Hann festi strax augu á mér og sagði: Nú ertu með eitthvað sem þú mátt ekki fara með út af vellinum. Nei, svaraði ég. Hann rétti út hendina í átt til mín en ég sagði um leið: Þú mátt ekki snerta mig. Hann fyrirskipaði okkur að leggja bílnum innan við hliðið og leitaði lauslega í honum. Þar sem ég vissi að hann gat kallað kvenlögregluþjón á vakt til að leita á mér hafði ég enga valkosti. Ég þarf að fara á snyrtingu sagði ég. Þú getur beðið með það, var svarið sem ég fékk til baka. Ok, sagði ég . Ég pissa þá bara hér á gólfið og það er til sönnunar þess að þú hafið neitað mér um rétt minn til að fara á salerni. Ég kæri þig fyrir ofbeldi. Hrellirinn minn leit kíminn á mig og sagði: Farðu þá á klósettið. Ég var afar handfljót, þegar ég tók sígarrétturnar úr hverjum pakkanum eftir annan og sturtaði stöðugt niður um leið. Ég kom síðan til baka, snéri mér að löggunni og fletti frá mér kápunni: Ertu núna ánægður, spurði ég?  Hann brá ekki svip en snéri sér að hljómsveitarstjóranum mínum og gaf leyfið sem við þurftum til að yfirgefa völlinn. Mörgum árum seinna, þegar ég var að karpa við hrellirinn minn um fjárhæðir vátrygginga minna, minnti ég hann á þennan tíma. Hann hafði blíðkast talsvert og gaf mér vænan afslátt.

Það var mjög gott að syngja í CPO klúbbnum. Gestirnir voru áhugasamir um lögin og tónlistina, klöppuðu mikið, ef þeim líkaði við lögin og það voru yfirleitt jafnmörg pör sem dönsuðu og fjöldi þeirra kvenna sem voru á staðnum. Annars var CPO klúbbur foringjatignar (chief´s club) sérstakur. Þar voru eingöngu miðaldra lítð menntaðir en harðduglegir atvinnuhermenn, sem höfðu unnið sig upp til foringatignar. Þeir sem stóðu fyrir klúbbnum tóku mér strax vel eftir að þeir höfðu ákveðið að ég gæti sungið. Þeir voru fundvísir á sveitastelpuna í mér og byrjuðu strax að ala mig upp, sögðu mér frá börnunum sínum og ég áttaði mig á að þeir voru afar hreyknir af að geta haft möguleika á veita þeim menntun þótt það kostaði þá herþjónustu fjærri heimili sínu og ástvinum. Svo komu umgengisreglurnar á Vellinum: Helga, sögðu þeir. Þú mátt aldrei sitja á börum. Það gefur rangar upplýsingar og dregur úr þeirri virðingu, sem þú átt skilið.   Ef þér er boðið að setjast við borð út í sal þá máttu aldrei setjast nema allir karlmenn við borðið hafi staðið á fætur til að sýna þér virðingu. Lífsreglurnar voru ótalmargar en einni fylgdi ég seinna á ævinni: Þú átt að afla þér meiri menntunar því menntun er nauðsynleg til að fjölga tækifærum lífsins. Svo brýndu þeir fyrir mér að annars gæti farið fyrir mér eins og þeim konum sem voru fastagestir þarna. Það var reyndar augljóst fyrir 19 ára stúlku að lífsbraut þessara kvenna var ekki eftirsóknarverð. Fyrir utan uppeldistilraunirnar þá var umræðuefnið Vietnam stríðið, hversu margar flugvélar frá Rússum væru að fljúga í óleyfi í íslenskri lofthelgi o.fl.  Þegar fréttin barst um að Kennedy hefði verið skotinn var ég á leiðinni út á völl til að syngja í CPO og var með grátstafinn í kverkunum þegar ég hitti uppalendur mína. Mér brá ekki lítið þegar þeir létu sér fátt um finnast og sögðu aðeins að Kennedy hefði verið að þeirra mati “krakkakjáni” sem vissi ekkert um alþjóðamál. Vafalítið var þetta álit þeirra runnið undan þeirri staðreynd að Víetnam stríðið var óvinnanlegt þar sem annars vegar mættust hugsjónir Norður Víetnama og spillt stjórnvöld í Suður Víetnam.   Stríðsrekstur Bandaríkjanna þar var engan vegin Bandaríkjunum til sóma og það vissu þeir.

O Club (The Officer Club) var miklu íburðarmeiri en CPO og meðlimir og gestir frábrugðnir. Þarna voru officerarnir, oft ásamt fjölskyldum sínum, ungir, ríkir og vel menntaðir háskólaborgarar, með officeratign, sem  komu oft til skammtímadvalar á Íslandi og síðan aðrir boðsgestir officerana.  Ungu háskólaborgararnir töluðu aðallega um stjórnmál, þjóðfélagið og efnahagshorfur í USA. Eiginkonur offiserana voru þessar dæmigerðu amerísku konur, sem töluðu út í eitt við hvora aðra um hvora aðra. Andrúmsloftið var þægilegt og innréttingar ásamt húsgögnum fallegar.   Þarna var einnig góður matur.   Veisluhöldin voru íburðarmikil og var þá mikið um íslenska gesti, sem var boðið, í tengslum við sérstök áhugamál eins og sjóveiði, golf o.fl. Gestirnir voru skemmtilegir og tóku þátt með því að biðja um óskalög og klöppuðu þegar þeim líkaði við tónlistina og dönsuðu mikið.

NCO club var klúbbur lautinanta. Klúbburinn var fjölsóttur og klúbbmeðlimirnir flestir á svipuðum aldri og ég. Stór matsalur var öðrum megin í byggingunni á móti danssalnum og voru þar yfirleitt amerískar fjölskyldur, hermenn og aðrir gestir. Þarna var einnig vinalegt viðmót og góðar móttökur. En umræðuefni hermannanna var talsvert ólíkt því sem var í CPO og O Club. Hér létu hermennirnir gamminn geysa og voru frásagnir þeirra í líkingu við dagdrauma þeirra. Undarlega margir áttu mjög ríka feður og það var t..d. mjög vinsælt að vera frá Detroit og eiga von á að hljóta bílaverksmiðju í arf.   Ungar íslenskar stúlkur sem sóttu þennan stað hlustuðu oft opinmynntar á allt það tal um gull og gersemar sem þær gætu átt í vændum handan við hafið. En draumlyndið er oft á tíðum öfugt við raunveruleikann. Klúbbarnir í radarstöðvunum Rockwille og í Sandgerði voru mjög áþekkir NCO klúbbnum nema þar voru eingöngu starfsmenn radarstöðvanna en engar fjölskyldur.

C club var klúbbur hinna óbreyttu. Opinn geimur með borðum og stólum og metersháu sviði var tengdur við leiktækja- og keilusal. Þar á milli voru dásamlegir sjálfsalar með öllu því nammi og sígarréttum sem hugurinn girntist. Alltaf þegar ég söng þarna fylgdu a.m.k. tveir herlögreglumenn mér eftir og gættu öryggis míns. Ef ég fór t.d. á snyrtingu, þá fóru þessir verndarar mínir fyrst inn til að kanna öryggi og biðu síðan fyrir utan þar til ég kom út. Klúbburinn var afar fjölmennur en fátítt að kvenkyns verur kæmu inn í þennan klúbb.   Eitt sinn þegar ég var að skemmta var krökkt af herlögreglu í salnum. Mér var sagt að það ætti að hleypa hópi hermanna, sem höfðu komið frá Vietnam inn í klúbbinn. Þessi hópur hafði verið lokaður inni á herspítalanum á Keflavíkurflugvelli um óráðinn tíma, því þeir voru taldir of veikir andlega til að hægt væri að sýna ástand þeirra og senda þá heim til fjölskyldna sinna í Bandaríkjunum. Við spiluðum alltaf í öllum klúbbum á Vellinum í þrjú korter með eins korters pásu á milli. Þarna vorum við beðin um að sleppa pásunum þegar hópurinn væri kominn inn. Það leið á kvöldið og viðbótarflokkur herlögreglu kom marserandi inn. Á eftir þeim komu þessir ógæfusömu hermenn sem var verið að hleypa út í fyrsta sinn. Lestina rak annað eins búnt af herlögreglu. Öll plasthnífapör höfðu verið fjarlægt úr salnum og eingöngu voru leyfð pappaglös og málmöskubakkar. Þegar hópurinn var búinn að koma sér fyrir við borð þá var það engum vafa undirorpið að mennskan virtist algjörlega hafa verið tekin frá þessum stríðsfórnarlömbum. Hljóðin sem þeir gáfu frá sér skáru sig inn í huga manns og þau voru sambland af niðurbældum öskrum og vanmættisópum frekar en að vera mannsraddir. Samskiptin voru á sama hátt áreiti á hvern annan í sífellu á milli óhljóðanna. Enginn þeirra virtist fær um að geta komið frá sér heilli setningu. Þeir fengu bjór en bjórinn sem fór ekki ofan í þá honum helltu þeir yfir höfuðið á sér og skvettu hver á annan.   Gólfið var orðið eitt fljótandi drullusvað. Að auki höfðu þeir hvolft úr öskubökkunum yfir hvorn annan. Að lokum stóðu sumir þeirra á fætur böðuðu út höndunum eins og þeir væru að verjast óvinum eða vara við hættum en aðrir hentu sér í gólfið og skriðu um líkt og þeir væru enn að verjast eða leita að óvinum í Víetmam.   Allir útataðir í bjór, sígarrettustubbum og ösku ásamt óhreinindum af gólfinu voru þeir tíndir upp af herlögreglunni og leiddir út. Fyrstu tilrauninni í átt til frelsis og lífs án herþjónustu var lokið.   Þarna fannst mér ég verða raunverulegur áhorfandi stríðshörmunga og ef til vill  í fyrsta og eina skiptið sem stríð varð mér raunverulegt á herstöðvarsvæðinu.