Glaumbær og Veitingarhúsið v/ Lækjarteig

Minningarnar um skemmtistaðina Glaumbæ og Veitingahúsið við Lækjarteig eru í mínum huga samofnar. Eftir að Glaumbær brann 1971 tók Veitingahúsið v/Lækjarteig við mörgum þeirra gesta, sem höfðu verið fastagestir í Glaumbæ.   Sigurbjörn Eíríksson (Bjössi í Glaumbæ) átti og rak báða staðina. Það efast enginn um að Glaumbær var á sínum tíma vinsælasti skemmtistaðurinn í Reykjavík meðal yngra fólks og allra þeirra, sem töldu sig unga. Um helgar voru langar biðraðir fyrir utan Glaumbæ, sem siluðust áfram. Það var stofnað til margskonar kynna í þessari löngu biðröð og þegar inn var komið þróuðust þessi kynni,  jafnvel fór svo að þeir voru ekki ófáir sem fundu sér þarna verðandi lífsförunaut. Mín aðkoma að Glaumbæ hófst 1966 og söng ég þar öðru hvoru frá því tímamarki þar til að Glaumbær brann, 5. desember 1971. Eftir það söng ég einnig í Veitingahúsinu við Lækjarteig. Sigurbjörn átti og rak Glaumbæ frá 1963 og með dyggri aðstoð Magnúsar Leópoldssonar unnu þeir staðinn upp og var hann fyrir löngu búinn að ná toppnum, þegar hann brann. Sigurbjörn var mikill vexti, hár og þrekvaxinn og fóru sögur af skapferli hans, þar sem hann var sagður, harður í horn að taka og þyldi illa að það væru ekki hreinar línur í mannlegum samskiptum kringum sig. Ég man eftir hljóðfæraleikara, sem hafði ekki staðið sig sem skyldi og kvartaði hann yfir því að Sigurbjörn hefði tekið sig upp á eyranu og gert sér ljóst, að ef slíkt kæmi fyrir aftur, þá myndi sá hinn sami fljúga á eyrunum út úr húsinu.  En Sigurbjörn átti líka aðra hlið, hlið mýktar og hugulsemi. Þegar ég söng í fyrsta skipti í Glaumbæ kom Sigurbjörn til mín og sagði við mig, að ef mig langaði að koma í Glaumbæ, utan þess, að ég væri að syngja, þá myndi ég ekki þurfa að bíða í biðröðinni, heldur ætti ég að banka á bakdyr sem hann sýndi mér og sagðist myndi láta starfsfólkið vita, að það ætti að hleypa mér inn.   Mér fannst þetta bæði hugulsamt og sérlega vel boðið. Ég notfærði mér þetta leyfi stundum en fannst ósmekklegt að ofnýta þetta rausnarlega boð. Hvert kvöld í Glaumbæ var öðru líkt, alltaf fullt hús og dansað mikið niðri. Á miðhæðinni sat fólk og spjallaði saman. En upp á lofti var oft lifandi músik og dansað.   Fyrir nokkrum árum sat ég í fjölskylduboði og mágkonur mínar tvær voru borðfélagar mínir. Önnur sagði skyndilega: Ég vinn allar keppnir þegar er verið að keppa um hver hafi hitt frægasta manninn. Nú hver var það, spurði ég forvitin. Hún sagði frá því. Við frásögnina rifjaðist upp fyrir mér atvik, sem átti sér stað í Glaumbæ, sunnudagskvöldið 21. júní, 1970. Undanfari þessa kvölds var að hin heimsfræga hljómsveit Led Zeppelin átti að halda tónleika daginn eftir. Allir, tónlistaraðdáendur, bjuggust við að þessi poppgoð myndu fara í Glaumbæ þetta kvöld því Trúbrot var að spila þar. Þegar ég kom í portið við Glaumbæ var mikill mannfjöldi samankominn. Það var deginum ljósara að spáin hafði reynst rétt og þessum heimfrægu gestum á Listahátíð, Led Zeppelin, hafði verið vísað á staðinn. Ég fór inn og stóð í mannþyrpingunni, sem hafði raðað sér hægra megin við sviðið. Andrúmloftið var rafmagnað. Fáir dönsuðu, en allir virðust bíða í eftirvæntingu eftir að eitthvað óvenjulegt eða óvænt myndi ske. Ég heyrði fólk í kringum mig segja: Nú eru Led Zeppelin að hlusta á Trúbrot. Hvernig ætli þeim finnist þeir spila? Klappa þeir? Ætli þeir taki í hljóðfærin með þeim? Brosa þeir? Það kom hins vegar eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar ég var skyndilega gripin af tveimur fílefldum lögregluþjónum. Þeir tóku undir handleggina á mér, hófu mig á loft og báru mig á milli sín. Ég fékk flugferð yfir hluta salarins. Þegar ég svo lenti eftir þessa óvæntu og óumbeðnu flugferð sat fyrir framan mig dökkhærður, brosandi maður með sveipi í hárinu og glettni í augum. Hann hélt á kampavínsglasi, sem hann rétti að mér og sagði á ensku: Má bjóða þér að skála við mig í kampavíni. Mér var stórlega misboðið við flugferðina svo ég hvæsti: Ég drekk ekki með ókunnugum. Ég kaupi mitt áfengi sjálf.   Ég strunsaði í burtu og fór upp á efsta loft, settist þar niður til að jafna mig eftir reiðikastið. Góð stund leið, en þá kom þessi dökkhærði, sá mig og gekk til mín og kynnti sig: Ég heiti John Bonham og ég er trommuleikari í Led Zeppelin. Eftir þessa formlegu kynningu tókum við tal saman. Þar kom, að ég sagði honum að ég væri úr sveit. Hann fékk mikinn áhuga og spurði meðal annars hvort býlið væri langt frá Reykjavík.   Mér skyldist á honum að hann ætlaði að kaupa sér jörð og gerast bóndi sjálfur svo ég reyndi að lýsa fyrir honum íslenskum sveitabúskap og sagði að júnímánuður væri háannatími í heyskap, m.a. að heyið væri sett í rúllur og geymt þannig. Áhugi hans var ódrepandi og þegar ég grobbaði mig smá og sagði, að ég hefði keyrt traktor og bakkað með kerru, sagði hann: Við ættum að fá okkur þyrlu á morgun svo ég geti fengið að taka þátt í alvöru sveitalífi á Íslandi. Ég sá fyrir mér hann föður minn, þegar ég myndi stíga út úr þyrlu ásamt síðhærðum poppara. Hann, sem hafði fyrr á árum hálfsigað Collietíkinni á ungan aðdáanda minn, þegar hann gerði saklausa tilraun til að bjóða mér á dansleik.   Þar að auki hafði hann megnustu óbeit á allri poppmúsik.  Nei, ég held að það sé ekki gott ráð, sagði ég. Við töluðum áfram, en þegar mikið er talað líður tíminn fljótt og tónlistin var hætt og ljósin blikkuðu. Það er víst verið að loka staðnum, sagði John. Ertu nokkuð á bíl? Nei, svaraði ég, eins og satt var, en bróðir minn er á bíl. Heldurðu að hann væri til í að keyra mig á hótelið, spurði John. Ég skal spyrja hann, sagði ég. Það var auðsóttur greiði, því bróðir minn og mágkona, sem reyndar var bílstjórinn þetta kvöld, voru bæði eðal aðdáendur Led Zeppelin. Þegar við komum að bílum brá mér. Bíllinn var fullsetinn, en einhvern veginn tókst John að koma sér fyrir og ég varð að sitja á hnjánum á honum. Mágkonu minni var svo brugðið við að fá að njóta návistar þessa heimsfræga trommuleikara að hún keyrði á fullum hraða yfir miðja umferðareyju á leiðinni út á Hótel Sögu. Við hoppuðum til og skoppuðum í bílnum þegar hann skall upp og niður yfir eyjuna, en þegar við vorum komin aftur á beinu brautina brosti John og spurði um leið: “Is she gonna kill us all?”  Það var aðeins eitt svar, sem kom til greina: “YES, I suppose so.”   Eftir þetta óvænta ævintýri komst John samt heill og óskaddaður á Hótel Sögu, reiðubúinn til að gefa Íslendingum sinn besta trommuleik á tónleikum morgundagsins.

Í Veitingahúsinu við Lækjarteig söng ég öðru hvoru rétt eins og í Glaumbæ. Sigurbjörn rak einnig þennan stað með svipuðu sniði og Glaumbæ. Staðurinn náði aldrei sömu sérstöðu í vinsældum og Glaumbær hafði á sínum tíma, en var samt vel sóttur en af breiðari aldurshópum. Ég tengdist þessum skemmtistað síðar, þegar ég fór þangað í allt öðrum og ólíkum tilgangi. Það hefur líklega verið 1979 eða árið eftir, að ég var kölluð inn á skrifstofu Helga V. Jónssonar, löggilts endurskoðanda og hæstaréttarlögmanns. Ég var þá nemi í endurskoðun í fyrirtæki sem hann var meðeigandi í. Hann sagði mér að ég ætti að fara og endurskipuleggja bókhald í fyrirtækjum Sigurbjarnar Eiríkssonar og gera það endanlega klárt undir gerð ársreikninga og skattskila nokkur ár aftur í tímann. Mér fannst það lýsandi fyrir ævihlaup mitt, að ég, dægurlagasöngkonan, væri að fara og skipuleggja bókhald og reikningsskil fyrir sama skemmtistað og ég hafði sungið á nokkrum árum áður. Ég hefði alveg eins getað lent í uppvaskinu, ef ég hefði ekki lagt á mig það erfiði og þau átök, sem þarf til menntunar. Þegar ég mætti á staðinn sá ég strax að koma mín kom Sigurbirni alls ekki á óvart. Ljóst var að hann átti von á mér. Ég hófst strax handa við undirbúninginn og fékk við það aðstoð tveggja starfskvenna.  Í ljós kom að það vantaði bæði fylgiskjöl og gögn. Ég tók þá til bragðs, að fara með konunum yfir hvernig þær hefðu tekið á móti skjölum og reikningum og hvar þeir gætu verið niðurkomnir.     Hluti af þeim reyndist vera í skrifborðskúffum og hér og þar. Enn vantaði fylgiskjöl og gögn. Það vakti furðu viðstaddra, þegar ég snéri mér að nokkrum fílefndum karlmönnum, sem voru staddir á staðnum og bað þá um að taka feiknastóran ísskáp sem var í innréttingu fram á gólfið. Allkonar pappírar og skjöl fóru að hrynja niður og fram á gólfið, þegar ísskápurinn var hreyfður. Við þessa viðbót kom í ljós að bókhaldinu, ársreikningunum og skattskilunum hafði verið bjargað. Aðstoðarkona Sigurbjarnar, önnur þeirra, sem hafði hjálpað mér í bókhaldsleitinni, bjó í nágrenni við mig. Þegar við síðar hittumst við matarinnkaup, brást ekki að hún spyrði mig spjörunum úr svo hún gæti fært Sigurbirni fréttir af mér. Hún sagði, að liði ekki eitt skipti þegar hún hitti hann, að hann segði ekki við hana: “Hefurðu frétt nokkuð af henni Helgu minn?”