Niðamyrkur blasti við þegar ég gekk niður tröppurnar, framhjá inngangi Leikhúskjallarans á hlið Þjóðleikhússins. Ég fór fyrir hornið að neðanverðu og gekk yfir holótt malaryfirlag með drullupollum hér og þar. Á bakhlið Þjóðleikshússins var rammgerð hurð, járnklædd og gluggalaus. Ég var komin á leiðarenda. Kvöldin í Leikhúskjallaranum voru að öllu jöfnu lituð af návist leikhússins. Fyrir utan matargesti komu flestir til að fá sér í glas fyrir leiksýninguna og fóru þá beint á barinn. Matargestirnir voru margir að fara í leikhús. Eftirvæntingin og áhuginn fyrir sýningunni kölluðu á ákafar umræður um verkið og vildu þessir leikhúsgestir alls ekki tónlist yfir samtalshæð. Það gat verið erfitt því dansgólfið fyrir framan hljómsveitina var girt af með fjölda af steyptum súlum sem voru lagðar álímdu speglagleri. Þetta gaf salnum skemmtilegan svip en hörmulegan hljómburð, því þótt tónlistin væri mjög lágvær á einum stað þá var hún talsvert yfir samtalshæð á öðrum. Þannig fengum við oft kvartanir um of háar eða of lágar hljóðstillingar þrátt fyrir yfirvegaða og þróaða spilamennsku. Fyrir mig var þetta ný lífsreynsla og verulega frábrugðin því sem ég hafði átt að venjast. Í Naval Air Station klúbbunum á Keflavíkurflugvelli voru gestirnir mjög áhugasamir um hljómlistina, báðu um óskalög og klöppuðu, ef þeim líkaði vel. Á Röðli voru svipuð viðbrögð en þarna upplifði ég að við værum hreint aukaatriði. Í leikhúshléum fylltist barinn aftur en tæmdist að mestu þegar sýning hófst á ný. Eftir sýningu kom síðan slangur af gestum niður . Fáir settust við borð því flestir voru enn að rökræða á barnum um sýninguna. Barinn var ekki opinn inn í sal nema að litlu leyti, þannig að ekkert samband myndaðist við þá gesti sem höfðu fært sig innar á barinn og stóðu ekki við innganginn.
Nýársgleði Leikhúskjallarans var gjörólík þessari upplifun. Á nýjársgleðinni fylltist húsið af matargestum við opnun. Þarna voru samankomnir flestallir toppar þjóðfélagsins, hvort sem metið var í peningavirði, mannaforráðum eða titlatogum. Ef tekið er gróft dæmi af gestum samkvæmisins þá mættu: Þáverandi forsætisráðherra Bjarni Benediktsson, aðalstjarna leikhússins Helga Valtýsdóttir og ríkir erfingar að gamalgrónum fyrirtækjum en nýríkt fólk slæddist innan um. Nýríka fólkið skar sig talsvert úr þar sem innvígsla þeirra í þetta gróna samfélag virtist ekki hafa enn farið fram við þessi áramót.