Naustið

Að fall sé fararheill sannaðist best þegar ég mætti í fyrsta skipti í Naustið. Ég var nýbúin að taka bílpróf og hafði náð að kaupa mér eldgamlan skrjóð, Willys jeppa. Miðað við eigin aksturlag á traktorum í sveitinni þótti mér vissara að hafa sterkan stuðara að framan og aftan. Það var mikill léttir fyrir mig að geta ekið á milli Vesturgötu og Ljósvallagötu, því þau voru ekki ófá skiptin, sem ég var elt árinu áður og áreitt, þegar ég gekk frá Þjóðleikhúskjallaranum út á Ljósvallagötu seint um kvöld. Aðallega var það Suðurgatan og Garðarstrætið, sem voru verst.   Á leiðinni í Naustið ók ég yfir Tjarnarbrúna og yfir á Lækjargötu. Ég hamaðist  á leiðinni við að reyna að muna textana úr Sound of Music því ég átti einnig að syngja við borðhald matargesta Mér var mikið niðri fyrir og vildi gera mitt besta til að þóknast gestunum og nafntoguðu tónlistasnillingunum, sem ég átti að vinna með. Ég söng af hjartans list og gleymdi stund og stað, en hrökk upp við þungt högg og ógurlegan skruðning undir bílnum. Öfugt við núverandi umferð þá var ég, skv. vinstri umferð, við gangstéttina húsamegin á götunni. Ég hoppaði út úr bílnum og sá þá mér til mikillar skelfingar að ég hafði keyrt niður umferðarskilti, sem var komið næstum undir miðjan bíl hjá mér. Ég skreið á hjánum og reyndi að ná skiltinu en það var blýfast. Hvað get ég gert? Ég, sem átti að vera mætt eftir korter á sviðið, í síðum kjól og háhæluðum skóm, hrein og snutfusuð. Ég leit í kringum mig en það var engin lögregla sjáanleg, reyndar var enginn á götunni. Rétt eins ég hefði gert í sveitinni, þegar trakorinn sat fastur í drullu, stökk ég upp í jeppann, setti í afturábak gír og steig bensínið í botn. Það kom snarpur hnykkur og heyrðust skellir og drunur þegar þessi ódrepandi jepparæfill skall ofan af umferðarskiltinu. Mér létti óumræðilega en áttaði mig á að ég var hræðilega útleikin, öll drulluskítug, eftir ævintýrið. Þar sem ég hafði aðeins nokkrar mínútur til að vera mætt á sviðið og var með kjólinn og skóna meðferðis í poka, þá ákvað ég að fara beint upp í Naust. Konan í fatageymslunni varð frekar toginleit þegar ég gekk inn og sagði henni að ég væri söngkona kvöldsins. Svona útlítandi hitti ég hljómsveitina mina.  Þeir horfðu á mig og spurðu: Hvað kom eiginlega fyrir þig? Ég sagði þeim stuttlega hvað hefði skeð. Þeim fannst atvikið afar fyndið, skellihlógu og hrósuðu mér í hástert yfir að hafa getað leyst úr þessu sjálf.  En kvöldið átti eftir að hafa meiri áhrif á mig en mig óraði fyrir. Þegar ég gekk uppáklædd og vel snyrt, í síða bleika kjólnum mínum og silfruðu háhæluðu skónum, framhjá uppþvottarvöskunum á leið í salinn, stoppaði mig eldri kona sem vann við uppvaskið. Hún var vinnulúin, með merki um lífsreynslu í andliti og bólgnar hendur. Hún sagði: Viltu leyfa mér að sjá hvað þú ert ung, falleg og glæsileg. Það kom leiftur minninga í augu hennar þegar hún sagði: Ég var eitt sinn vinsæl söngkona og rétt eins og þú, ung, falleg og glæsileg. Þarna flugu um huga minn ráðleggingar uppalenda minna í CPO klúbbnum á Naval Air Station, Keflavík, um fleiri tækifæri í lífinu með aukinni menntun. Kvöldið hafði byrjað á ævinlýralegan hátt en þegar við fórum að spila var salurinn troðfullur af matargestum. Síðar um kvöldið eftir að borðhaldi lauk og matargestirnir, sem var flest fullorðið fólk, höfðu yfirgefið staðinn komu bargestirnir, sumir hálfveltandi niður stigann og inn í salinn óstöðugir á fótunum. Þeir voru einnig í eldri kantinum. Mér var ljóst að ég hafði lent í að syngja fyrir gesti “upstairs and downstairs” en öfugt við breska myndaflokkinn þá voru “fínu” gestirnir downstairs fram að lokun barsins, sem var á annari hæð. Eftir að bargestirnir höfðu komið sér fyrir á neðri hæðinni hófst hinn raunverulegi dansleikur. Hjá sumum einkenndist dansinn ekki af svífandi suðrænum töktum eða yndisþokka, heldur gripu karlarnir heljartaki neðan undir rass mótdansarans Við þrýstinginn lyftust kjólarnir svo hátt við að í ljós komu líkamshlutar sem við konur hyljum venjulega jafnvel fyrir okkar nánustu. Aldrei sáust svipbrigði á þessum heiðursmönnum, sem ég vann með í hljómsveitinni, né að þeir minnust orði á ósæmilega hegðun sumra dansgestanna.  Þessi mynd frá dansgólfinu í Naustinu festist í huga mér og ég gaf mér það loforð að svona skyldi ég aldrei verða. Það er fátt ömurlegra en drukkið eldra fólk, sem misst hefur sjálfsvirðingu sína.

Naustið var í huga margra ævintýrastaður hinna ríku og geymdi þau leyndarmál sem aldrei voru sögð. Láreist byggingin lét ekki mikið yfir sér en það vakti furðu hversu vel allt pláss var nýtt innandyra.   Svæðum var skipt í bása og báru allir fornar nafngiftir eða tengdust hafinu. Hljómsveitin sem ég átti að syngja með var Tríó Carls Billich. Sjálfur lék hann á pianó í hljómsveitinni en var þaulreyndur hjómsveita- og kórastjórnandi um margra áratuga skeið á Íslandi. Hann var Austurríkismaður en kom til Íslands 1933, var síðan hnepptur í fangabúðir í Bretlandi 1940, en sendur skilríkjalaus til Þýskalands eftir stríð. Hann komst aftur til Íslands með hjálp eiginkonu sinnar 1947 eftir mikla og aðdáunarverða leit hennar að honum, meðal hinna vegalausu fanga, sem eins var ástatt fyrir í Þýskalandi. Í framhaldinu fékk hann íslenskan ríkisborgararétt. Jan Morávek var tékkneskur að uppruna og einnig frumkvöðull í íslenskri tónlistarsögu. Hann spilaði aðallega á fiðlu, harmonikku og klarinett í hljómsveitinni en spilaði þar að auki á a.m.k. á 9 önnur hljóðfæri.   Hann flutti til Íslands 1948. Það var takmarkalaus virðing sem ég bar fyrir þessum frábæru tóntistarmönnum og á allan hátt verðskulduð. Þeir báru með sér keim fortíðar sinnar þegar þeir tjáðu sig á hljóðfærin. Carl spilaði fallega og algjörlega gallalaust og það var ljóst að hver nóta var spiluð af yfirvegun og fullkominni stjórn. Jan, hins vegar leiddi mig um í tónlist sinni. Þar hljómaði sterkt allt lífshlaup hans og uppruni þannig að viðkvæmni og styrkur, með túlkun tóna, gáfu mér bæði trega og mjúka gleðitilfinningu, þegar ég hlustaði á hann spila.