Þessi síða er afsprengi þess neista sem kviknaði í minningarskini fortíðarinnar þegar Helgi Snorrason vann það gríðarmikla afrek að setja upp upplýsinga- og safnvefinn: http://musicallovertheworlddotcom.wordpress.com Síðan mín er hugsuð sem undirsíða hjá vefsíðunni hans. Helgi hefur hvatt mig áfram til framkvæmda en það var þrátt fyrir góða hvatningu gífurlega erfitt að byrja. Ég hafði ekki hugsað um þennan söngferil minn í fjóra áratugi. Þar að auki hef ég alltaf verið haldin ljósmyndafælni þannig að ég átti engar myndir frá þessu tímabili nema myndir sem Kiddi Ben. tók af mér. Þær myndir eru, eins og allar hans myndir, hreinasta listaverk. Ég tók mig til og gramsaði í timarit.is og frá þeim auglýsingum sem ég fann þar ásamt minnisupprifjun minni er þessi síða mín unnin. Þær gífurlegu breytingar sem hafa orðið á aðgengi tónlistar og möguleikum á flutningi bæði tæknilega og félagslega tel ég kalla á skýringartexta með þeim ljósmyndum og auglýsingum sem hafa verið valdar á síðuna mína. Og ekki síst tilurð þess að ég gerðist dægurlagasöngkona.
Ég var 18 ára þegar ég og vinkona mín fluttumst til Reykjavíkur í ævintýraleit. Í stað þeirra fjölmörgu kráa og smádanshúsa sem nú eru með og án lifandi tónlistar, þegar þetta er ritað, voru aðeins fáeinir “stórir” skemmtistaðir sem annars vegar voru eingöngu fyrir gömlu dansana og hins vegar þeir sem buðu upp á tónlist augnabliksins. Reynt var að flytja tónlistina í eftirlíkindastíl upprunalega flytjandans – helst með sömu frösum og svipaðri rödd og raddbeitingu. Þá voru sveitaböll mjög vinsæl, aðallega fyrir yngri kynslóðina og sáu hljómsveitirnar og/eða umboðsmenn þeirra um rútuferðir á dansleikina. Á sveitaböllunum var ekkert áfengi selt heldur var aðeins á staðnum vínlaus sjoppa. Samt flóði allt í áfengi sem var drukkið af stút í rútunum, bílum og inni á staðnum. Í bílana var smalað kunningjum og vinum í bænum og keyrt á sveitaböllin. Bílstjórarnir höfðu oft eitt pláss laust í bílnum svo þeir hefðu pláss fyrir “sjénsinn” sinn á heimleiðinni. Þessir bílar voru oft ofhlaðnir áfengi og jafnvel var ferðin jafnframt söluferð með áfengi til dansgesta. Það var einnig talið til sveitaballa þegar vinsælustu hljómsveitirnar spiluðu í Hlégarði í Mosfellsbæ og þá var farið með rútu frá BSÍ, sem var staðsett við Tryggvagötu, til Mosfellsbæjar. Í dag finnst okkur Hlégarður vera í borg en ekki sveit. Sama regla gilti þarna og á öðrum sveitaböllum. Margir “heimamenn” söfnuðust saman í eigin bíla og gátu þá allir “dottið í það” nema bílstjórinn. Innan borgarmarka í Reykjavík var vínveitingastaðurinn Röðull afar vinsæll og einnig vínlausi staðurinn Þórskaffi en í Þórskaffi smygluðu gestirnir inn áfengi í hverju sem var, plastpokum innan undir fötum, pelum í vösum og veskjum og svona mætti lengi telja. Eftir að staðirnir lokuðu kl.1:00 um nóttina fylltist oft miðbærinn eða rúnturinn eins og hann var kallaður þá. Þá sveimuðu “gæjarnir” á köggunum hring eftir hring – Austurstræti, Aðalstræti, Pósthússtræti og Lækjargötu eins og dýróðir laxveiðimenn við góðan hyl og settu út alla sína öngla, þegar þeir sáu fegurðardísirmar spranga um á rúntinum. Ekki má gleyma Vetrargarðinum í Vatnsmýrinni sem var aðallega sóttur af þyrstum einmana sjómönnum og konum. Á þessum tíma var enginn farsími, ekkert internet og þar af leiðandi ekkert Youtube eða Spotify. Það var ekki einu sinni hægt að fá keyptar nótur með vinsælum lögum eða hvað þá heldur að nálgast á annan hátt alla hljómasúpuna enda voru þeir sem höfðu eyra fyrir og getu til að ná þessum brotnu hljómum taldir miklir tónlistarsnillingar. Aðallega var tónlistin tekin upp á segulband með spólum á stærð við desertdiska. Segulbandið vóg um 20 kg. og var á stærð við meðal mixer nútímans. Radio Luxembourg var aðaluppspretta upptakna því þar voru vinsælustu lögin spiluð miklu fyrr en á einu íslensku útvarpsstöðinni, ríkisútvarpinu. Reyndar var sambandið við Radio Luxembourg oft slitrótt í Reykjavík og þá varð að reyna að fiska lagið sem átti að æfa nokkrum sinnum til að ná því í heild sinni. Það gat reynt á þolinmæðistaugina því vinsældarlistinn var ekki spilaður daglega. Reyndar var talsvert mikið öfundarefni þegar okkur, fyrir sunnan, var tjáð að hlustunarskilyrðin væru svo miklu betri hjá þeim vestur á Ísafirði og norður á Akureyri. Þeir gátu náð öllu laginu í einni hlustun.
Í fyrstu fylgdi mikil einangrun því að koma utan af landi til höfuðborgarinnar. Allir “innfæddir” þekktust þannig að það mátti líkja tilveru okkar vinkvennanna við aðstæður og tilveru nýbúa nútímans nema það var enginn til að taka á móti okkur eða veita okkur aðstoð. Við urðum að spjara okkur sjálfar án utanaðkomandi aðstoðar, leiðbeininga eða hjálpar. Ég fór í hárgreiðslunám og fékk 600 kr. í mánaðarlaun en vinkona mín sem réði sig í afgreiðslustörf og fékk meðallaun miðað við það sem tíðkaðist þá. Mér sveið sárt að leggja ekki meira til okkar sameiginlega framfærslukostnaðar, því við skiptum öllu jafnt. Að endingu stóð ég í miðjum mánuði í sjoppu, staurblönk og svöng, utan þess að eiga fyrir einni kók, prins póló og einum sígarréttupakka, þegar ég sá auglýsingu í dagblaði. Óskað var eftir söngkonu til að syngja á Keflavíkurflugvelli.
Ég mætti ásamt fleirum og allar fengum við að syngja eitt prufulag. Eftir prufurnar kom hljómsveitarstjórinn, Einar Logi Einarsson, til mín og sagði stutt og laggott: “Þú ert ráðin. Þú byrjar næstu helgi”.